Háskóli Íslands

Áhættuhegðun og seigla ungs fólks - Langtímarannsókn

Árið 1994 fór Sigrún Aðalbjarnardóttir af stað með langtímarannsóknina:Áhættuhegðun og seigla ungs fólks. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að athuga áhættuþætti í lífi unglinga og ungs fólks sem tengist vímuefnaneyslu þeirra, námsárangri og brotthvarfi frá námi. Neysla og námsgengi eru skoðuð í tengslum við ýmsa félagslega þætti (stétt, fjölskyldugerð), uppeldislega þætti (uppeldisaðferðir foreldra, stuðning foreldra og vina) og sálfræðilega þætti (s.s. sjálfsmat, trú á eigin getu, streitu, depurð, andfélagslega hegðun).

Annað markmið rannsóknarinnar felst í því að hanna þroskalíkan til að greina sálfélagslegan þroska ungmenna (þekkingu, samskiptahæfni, persónulega merkingu) í tengslum við neyslu þeirra og er það nýtt framlag til vísindarannsókna á alþjóðvettvangi. 

Þátttakendur rannsóknarinnar eru allir unglingar Reykjavíkurborgar sem voru í 9. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur vorið 1994 (f. 1979). Sömu gögnum hjá sömu einstaklingum hefur verið safnað með spurningalistum frá 1994 til 2002. Einnig hafa verið tekin djúpviðtöl við hluta þeirra um vímuefnaneyslu þeirra og samskipti við fjölskyldu og vini. Jafnframt hafa þessi langtímagögn annars vegar verið tengd við námsárangur hópsins á samræmdum prófum við lok grunnskóla (10. bekkur) og hins vegar við upplýsingar frá Hagstofu Íslands um námsferla og útskriftir til ársloka 2004. Unga fólkinu hefur því verið fylgt eftir frá 14 ára aldri fram á 26. aldursár.

Miðað er að því að nýta niðurstöður þessarar rannsóknar í fyrirbyggjandi starfi með börnum og ungmennum og leggja jafnframt grunn að hagnýtum rannsóknum á þessu sviði.

Áhersluþættir rannsóknarinnar sem unnið hefur verið að til þessa eru meðal annars:

  • Uppeldishættir foreldra og tengsl þeirra við
    • vímuefnaneyslu ungs fólks
    • samskiptahæfni, sjálfsmat og depurð ungs fólks
    • námsárangur ungmenna og brotthvarf frá námi úr framhaldsskóla
       
  • Trú á eigin getu til að hafa áhrif á líf sitt og vímuefnaneysla ungs fólks
  • Árásarhneigð ungmenna og vímuefnaneysla
  • Sálfélagslegur þroski ungmenna og vímuefnaneysla
  • Viðhorf ungmenna til vímuefnaneyslu og vímuefnaneysla þeirra
  • Kortlagning vímuefnaneyslu sama hóps ungmenna frá 14 til 22 ára aldurs eftir kyni, stéttarstöðu, fjölskyldugerð, fyrri neyslu og neyslu foreldra og vina
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is