Nútíminn kallar á góða samskiptahæfni og á það jafnt við um samskipti innan fjölskyldunnar, í félaga- og vinahópnum, á starfsvettvangi og í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi. Rannsóknarstarf Sigrúnar Aðalbjarnardóttur hófst á að kanna félagsþroska og samskiptahæfni barna og unglinga. Grunnrannsóknirnar beinast m.a. að því að athuga hvernig hugmyndir barna og unglinga (7-13 ára) þróast um ýmis félagsleg og siðferðileg efni, svo sem hvernig leysa megi ágreiningsmál í samskiptum. Einnig hafa þær beinst að því að kanna tengsl á milli samskiptahæfni barna og rökhugsunar þeirra, sjálfsstjórnar, kvíða, félagslegrar einangrunar og námsárangurs. Þá hefur Sigrún skoðað tengsl á milli hugsunar og hegðunar sem er eilíft athugunarefni; sömuleiðis tengsl á milli framfara í hugsun og framfara í hegðun.
Í framhaldi grunnrannsóknanna var farið af stað með rannsóknar- og skólaþróunarverkefnið: Hlúð að félags- og tilfinningaþroska nemenda þar sem kannað var hvort grunnskólanemendur sem tóku þátt í skólaþróunarverkefninu sýndu meiri framfarir í samskiptahæfni en nemendur sem ekki tóku þátt. Skólaþróunarverkefnið stóð yfir frá 1988-1996 og voru niðurstöður afar jákvæðar bæði með tilliti til framfara í hugsun og hegðun.
Þróunarverkefnið felst í að vinna með kennurum yfir skólaárið þar sem fjallað er um tengsl fræða og bekkjarstarfs og hvernig efla megi samskiptahæfni nemenda með tilteknum kennsluaðferðum. Í tengslum við rannsóknina samdi Sigrún námsefni fyrir nemendur og handbækur fyrir kennara og foreldra ásamt Árnýju Elíasdóttur.
Á árunum 2008 til 2010 var farið af stað með rannsóknar- og skólaþróunarverkefnið: Að rækta farsæl samskipti: Framfarir í skólastarfi. Verkefnið bygðist á ofangreindum rannsóknum og reynslu á þessu sviði sem greint er frá í bók Sigrúnar: Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar.
Unnið var á vettvangi skólastarfs í samstarfi við skólastjóra og kennara grunnskóla. Verkefnið miðaði að því að rækta samskiptahæfni, samlíðan og siðferðiskennd nemenda og leggja um leið grunn að borgaravitund þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Leitast var við að þroska hugsun þeirra um ýmis félagsleg, tilfinningaleg og siðferðileg efni og efla um leið hæfni þeirra í daglegum samskiptum, m.a. hæfni þeirra til að setja sig í annarra spor, skoða mál frá ýmsum sjónarhornum og koma sér saman um lausn mála. Annað markmið verkefnisins var að skapa kennurum aðstæður til að ígrunda starf sitt og veita þeim tækifæri til að þróa sig og vaxa í starfi.