Háskóli Íslands

Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar

Virðing og umhyggjaBók Sigrúnar Aðalbjarnardóttur (2007), Virðing og umhyggja - Ákall 21. aldar, hefur fengið afar góðar viðtökur. Fyrsta upplag bókarinnar seldist upp á aðeins örfáum mánuðum.

Umsagnir um bókina.

Ritdómur um bókina.

 

 

 

 

Hjá Heimskringlu – Háskólaforlagi Máls og menningar er komin út bókin Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar

Fátt er mikilvægara en uppeldi og menntun æskufólks. Hér er athyglinni beint að því hlutverki uppalenda, einkum í skólastarfi, að rækta mikilvæg gildi í samskiptum fólks sem almenn samstaða ríkir um: virðingu og umhyggju, vináttu og kærleika, réttlæti og umburðarlyndi. Megináhersla er lögð á hversu brýnt sé að efla samskiptahæfni og siðferðiskennd barna og unglinga og leggja grunninn að fjölmenningarlegri hæfni þeirra og lýðræðislegri borgaravitund. Umfjöllunin byggist á áralöngum rannsóknum höfundar á félagsþroska og samskiptahæfni barna og ungmenna og uppeldis- og menntunarsýn kennara. Hún hvílir á traustum fræðilegum grunni og jafnframt er framsetningin afar lipur og aðgengileg. Viðfangsefnið snertir okkur öll, jafnt foreldra og aðra ættingja sem þær fagstéttir sem annast uppeldi og menntun barna og unglinga og hlúa að heilbrigði þeirra og farsæld. (Af bókarkápu).

Umfjöllun bókarinnar ætti að nýtast kennurum, skólastjórnendum og kennaramenntunarstofnunum, enda beinist athyglin mjög að skólastarfi og tengslum fræða og framkvæmda. Efni bókarinnar veitir einnig foreldrum og foreldrasamtökum innsýn bæði í þroska barnanna og skólastarfið. Þá ætti efnið að koma fólki að gagni sem vinnur að margs konar verkefnum með ungu fólki á ýmsum vettvangi utan heimila og skóla svo sem í félagsmiðstöðvum, æskulýðs- og tómstundafélögum og innan trúfélaga. Loks ætti umfjöllunin að nýtast ýmsum fræðimönnum og rannsakendum á þessu sviði, meðal annars í hug- og félagsvísindum (svo sem siðfræðingum, uppeldis- og menntunarfræðingum, námsráðgjöfum, félagsráðgjöfum, félagsfræðingum, sálfræðingum, bókmennafræðingum, guðfræðingum). Jafnframt eru vonir bundnar við að þeir sem vinna að stefnumótun innan mennta- og félagsmálakerfisins nýti sér þær áherslur og þá umræðu sem hér kemur fram.

Árið 2008 var bókin sett á lista Hagþenkis yfir tíu framúrskarandi fræðirit sem komu til greina við veitingu viðurkenningar Hagþenkis 2008. Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum fræðilegra rita fyrir skóla og almenning getur hlotnast. Á heimasíðu Hagþenkis stendur um eftirfarandi um bókina: ,,Tímabær umfjöllun um forsendur uppeldis og menntunar, byggð á áratuga störfum og rannsóknum."

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is